„Vel heppnaðar ráðningar eru gríðarlega mikilvægar enda eru mistök í ráðningum dýrkeypt fyrir alla aðila,“ segir Hildur Þórisdóttir, starfsmannastjóri MP banka. Hún hefur gegnt stöðunni síðan 2009 en hún starfaði áður á starfsmannasviði Straums fjárfestingabanka.

Hildur segir mikilvægt að stjórnendur hugi að stefnu og fyrirtækjamenningu þegar kemur að ráðningum. „Mismunandi gildi og umhverfi hentar ólíkum einstaklingum misvel og skiptir því miklu máli að væntingar aðila fari vel saman. Stjórnendur þurfa líka að vera meðvitaðir um eigin fordóma og staðalímyndir og reyna að tryggja að þær ráði ekki för því einsleitni getur staðið árangri fyrir þrifum,“ segir Hildur.

Þegar Hildur hóf störf hjá MP banka var hún fyrsti starfsmannastjóri bankans og það féll því í hennar hlut að móta hlutverkið. „Það var skemmtilegt verkefni enda frábær starfsmannahópur hjá bankanum sem var tilbúinn að taka virkan þátt í mótun og uppbyggingu bankans. Reynsla mín úr fyrri störfum þar sem ég hafði einnig komið að uppbyggingu starfsmannamála kom því að góðum notum,“ segir Hildur.

Hún er með BA í sálfræði og MSc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands en hún segir menntun sína á þessum sviðum góðan grunn fyrir starfsmannamálin. „Það má segja að háskólanám sé ákveðið uppeldi og móti vinnubrögð manns til framtíðar,“ segir Hildur. Starfssvið Hildar hjá MP banka í dag er nokkuð vítt: „Hattarnir eru nokkrir í daglegum störfum þar sem ég ber ábyrgð á starfsmannamálum bankans og kynningarmálum. Það er mjög skemmtileg blanda og fer vel saman þar sem ávallt þarf að huga að innri og ytri málum í ákveðinni samfellu. Enda hef ég ávallt átt gott samstarf við markaðs- og samskiptasvið í störfum mínum sem starfsmannastjóri,“ segir Hildur.

Rætt er við Hildi í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .