*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 13. desember 2019 09:33

Fréttablaðið kaupir DV og dv.is

Tilkynnt var um kaup Fréttablaðsins á DV á starfsmannafundi sem haldinn var nú klukkan 10.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Boðað var til starfsmannafundar hjá Torgi ehf., útgefanda Fréttablaðsins og Hringbrautar, nú klukkan 10, þar sem tilkynnt var um kaup Fréttablaðsins á DV.

Mun Torg ehf., sem gefur út Fréttablaðið kaupa tilteknar eignir af Frjálsri fjölmiðlun ehf., útgáfufélagi DV, það er blaðið sjálft og útgáfuréttinn ásamt vefmiðlinum dv.is og fylgja væntanlega undirvefirnir eyjan.is, pressan.is, 433.is, fokus.is og bleikt.is, og gagnasafnið.

Samningurinn er með fyrirvara um samþykki fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins en að því er Fréttablaðið greinir frá verða vefmiðlar Torgs með kaupunum meðal þeira víðlesnustu hérlendis.

Sagt var frá því af Kjarnanum í gær að unnið væri að því að sameina Frjálsa fjölmiðlun, útgefanda DV, og Torg sem gefur út Fréttablaðið og tengda miðla. Verði af sameiningunni verður þar á ferð eini fjölmiðill landsins sem heldur úti prent-, net- og sjónvarpsmiðli.

Hringbraut og Fréttablaðið sameinuðust í október eftir að Helgi Magnússon eignaðist allt hlutafé í Torgi. Kom fram að ef ekki hefði verið gripið til þess ráðs hefði Hringbraut rúllað veg allrar veraldar.