Fyrir hverja krónu sem endar í vasa launafólks á Íslandi þarf vinnuveitandinn að borga að minnsta kosti 1,74 krónur, samkvæmt útreikningi Viðskiptablaðsins. Er þá miðað við meðaltal heildarlauna samkvæmt tölum Hagstofunnar og tekið er með í reikninginn tekjuskattur, tryggingagjald og lögbundin iðgjöld starfsmanns og vinnuveitanda.

Þá er í mörgum kjarasamningum ákvæði um greiðslur í sjúkrasjóði, starfsmenntasjóði, endurhæfingarsjóði og fleira slíkt, sem ekki er með í þessum útreikningi. Ekki eru heldur teknar með greiðslur í séreignarsparnað. Er því ljóst að í langflestum tilfellum er kostnaður vinnuveitanda því varlega áætlaður.

Í nýlegri skýrslu hugveitanna New Direction og Institut économique Molinari er þetta hlutfall reiknað út fyrir öll aðildarríki Evrópusambandsins. Kemur þar fram að launakostnaður er hlutfallslega langhæstur í Belgíu, en fyrir hverja evru sem endar í vasa launþega þarf vinnuveitandi að greiða 2,31 evru. Í Frakklandi er talan 2,18 evrur og í Austurríki 2,13 evrur. Grikkland og Ungverjaland fylgja svo í kjölfarið með 1,98 evrur og í Þýskalandi er talan 1,97 evrur.

Heildarkostnaður vinnuveitenda
Heildarkostnaður vinnuveitenda
© Aðsend mynd (AÐSEND)