Þegar Kaupþing féll námu lánveitingar bankans til 130 starfsmanna hans vegna hlutabréfakaupa 47,3 milljörðum króna. Þau lán voru færð yfir til Arion.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þau hafi verið færð þangað á 0 krónur.

Stjórn Kaupþings ákvað tveimur vikum áður en bankinn hrundi að fella niður allar persónulegar ábyrgðir starfsmannanna vegna lánanna. Flest lánin höfðu verið veitt með þeim skilmálum að persónuleg ábyrgð starfsmannanna væri takmörkuð við tíu prósent af höfuðstól skuldarinnar, eða um 10,5 milljarða króna.

Tæpur helmingur þeirrar niðurfellingar var á ábyrgðum sjö æðstu stjórnenda bankans. Hluthafar Kaupþings hafa kært niðurfellinguna til sérstaks saksóknara. Á meðan málið er þar til skoðunar ætlar Arion ekki að taka ákvörðun um hvort lánin verði afskrifuð eða ekki.

Ríkisskattstjóri hefur auk þess verið að vinna að formlegu áliti um hvort niðurfellingar á lánunum séu mögulega skattskyldar. Það myndi skapa mjög háa skattaskuld hjá þeim starfsmönnum Kaupþings sem fengu slíkar niðurfellingar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ætlaði embætti Ríkisskattstjóra að klára álit sitt fyrir áramót en það hefur dregist. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir álitið væntanlegt.