Starfsmenn skráðir hjá starfsmannaleigum hefur fækkað um 30% á milli ára. Frá september í fyrra til september í ár hefur þeim fækkað úr rúmlega 2.000 í um 1.400 að því er Morgunblaðið greinir frá.

Jafnframt hafa skráningarnar síðustu mánuði verið færri en í fyrra, en í byrjun árs voru útsendir starfsmenn hins vegar fleiri í ár en í fyrra, svo þróunin hefur snúist við í ár. Um er að ræða starfsmenn á vegum fyrirtækja í Evrópu sem koma að vinna að ákveðnum verkefnum í skemmri tíma.

Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að starfandi fólki sé þó enn að fjölga ef miðað er við tölur Hagstofunnar frá fyrri hluta ársins. Þó hafi innflytjendum með lögheimili erlendis fækkað á vinnumarkaði síðan í mars, þar á meðal í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

„Ég held að atvinnuleysi muni aukast,“ segir Ingólfur sem vill meina að framundan sé meira jafnvægi á vinnumarkaði milli framboðs og eftirspurnar vinnuafls. „Dregið hefur úr hagvexti og slaknað á þeirri spennu sem hefur verið á vinnumarkaði.“