Starfsmannavelta kostar bresk fyrirtæki um 42 milljarða Sterlingspunda árlega, samkvæmt nýrri skýrslu PricewaterhouseCoopers (PwC).

Frá þessu er greint á vef BBC þar sem fjallað er um skýrsluna. Þar segir að skortur á því að viðhalda starfsfólki sé að kosta fyrirtæki stórfé.

Þannig mælist töluverður kostnaður í þjálfun og þekkingu sem hverfur úr húsi með hverjum starfsmanni sem hættir störfum auk tímans og fjármagnsins sem fer í að þjálfa nýtt starfsfólk.

Fram kemur í skýrslu PwC að algengasta ástæðan fyrir því að starfsfólk lætur af störfum er sú að það fær betur launaða vinnu annars staðar.

Þá kemur einnig fram að uppsagnarhlutfallið, ef svo má að orði komast, í Bretlandi er nú 10,4%. Þar er átt við það hlutfall starfsmanna sem segir upp störfum á ársgrundvelli. Á sama tíma er hlutfallið 7% í Bandaríkjunum og 5% í Frakklandi og Þýskalandi.

„Menn vanmeta oft fjárhagslega ávinninginn af því að halda starfsfólki,“ segir Richard Phelps, mannauðsstjóri hjá PwC sem kom að gerð skýrslunnar.

„Á meðan fyrirtæki eru að vinna sig út úr erfiðleikum, er mikilvægt að þau hafi í huga kostnaðinn sem fylgir því að missa starfsfólk í önnur störf.“