Sveigjanlegur vinnutími og meiri tillitssemi fyrirtækja við starfsmenn getur skilað fyrirtækjunum fjárhagslegum ávinningi, að sögn Margrétar Sanders, framkvæmdastjóra rekstrar hjá Deloitte. Nefnir hún Deloitte sjálft sem dæmi um þetta.

„Árið 1993 var farið af stað með verkefni í Bandaríkjunum til að auka fjölbreytni og sveigjanleika á vinnustaðnum eftir að í ljós kom að starfsmannavelta var 7 prósentustigum meiri meðal kvenna en karla. Í fyrirtæki eins og okkar kostar þjálfun starfsmanna mikið fé og ef við erum að missa svona stóran hóp á hverju ári þá erum við að tapa peningum að óþörfu.“

Því var farið að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma og koma með öðrum hætti til móts við þarfir t.d. kvenna með börn. „Upphaflega sneri verkefnið að því að minnka starfsmannaveltu meðal kvenna, en fljótlega fóru karlarnir að sjá kosti í sveigjanlegri vinnutíma og þá var almennt farið í að breyta kúltúrnum á vinnustaðnum. Þetta hefur tekist afar vel og haft áhrif á fyrirtæki Deloitte á alþjóðavísu. Í starfsánægjukönnunum um allan heim hefur Deloitte verið að skora hátt og Deloitte verið í hópi þeirra fyrirtækja þar sem ánægja starfsmanna er einna mest á Íslandi. Nú er kynjamunurinn í starfsmannaveltu nær horfinn, en það sem mestu máli skiptir er að starfsmannavelta almennt hefur minnkað – bæði hjá körlum og konum.“

Ítarlegt viðtal við Margréti er að finna í nýjasta blaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.