Breska blaðið Financial Times greinir frá því í dag að bandarísk yfirvöld hafi handtekið „einn hæst setta einkabankastjóra“ svissneska bankans UBS og yfirvöld vestanhafs rannsaki nú hvort hann hafi hjálpað bandarískum viðskiptavinum sínum með skattsvik.

Talsmaður UBS staðfesti þessar fréttir í dag en neitaði að nafngreina manninn.

Nafn mannsins kemur þó fram í frétt Financial Times sem segir manninn vera Martin Liechti, yfirmann einkabankaþjónustu UBS í Norður og Suður Ameríku búsettur í Zurich.

Bandarísk yfirvöld rannsaka hvort UBS hafi með einkabankaþjónustu sinni veitt bandarískum þegnum ráðgjöf sem leitt hafi til skattsvika á árunum 2000 – 2007.

Talsmaður bankans segir að unnið sé með bandarískum yfirvöldum að málinu og viðurkenndi aðspurður að verið væri að rannsaka fleiri starfsmenn bankans.

Financial Times greinir ekki frá því hversu lengi Liechti var í haldi yfirvalda en talsmaður UBS segir að starfsmanninum hafi aðeins verið haldið um „skamma stund.“ Þá segir talsmaður bankans að Liechti væri vitni í málinu en ekki grunaður. Financial Times segir hins vegar að hann sé með réttarstöðu grunaða.