Tvö þúsund starfsmenn Amazon í Þýskalandi eru nú í verkfalli vegna kjaradeilna. Starfsfólkið vinnur í vöruhúsum Amazon en vill vera skilgreint sem sölufólk og fá borgað í samræmi við það. Á þetta vill fyrirtækið ekki fallast. Stéttarfélag starfsmannanna segir Amazon vilja stjórna vinnuaðstæðum og kjörum einhliða en það vilji starfsfólkið ekki sætta sig við lengur. Starfskjör þeirra séu ekki sambærileg við það sem gangi og gerist í öðrum vöruhúsum í landinu. Laun séu lág og mikið álag sé á starfsfólki.

Fréttaskýringaþáttur breska ríkisútvarpsins, Panorama, fylgdist leynilega með vöruhúsi Amazon í Bretlandi og komst að því í fyrra að svipað er uppi á teningnum þar.

Yfir níu þúsund manns vinna hjá Amazon í Þýskalandi, en markaðurinn er sá næststærsti í heiminum á eftir Bandaríkjunum. Síðast fóru starfsmenn fyrirtækisins í Þýskalandi í verkfall fyrir jólin í fyrra, vegna sama máls.