Starfsmenn Amazon á Ítalíu hyggjast fara í verkfall á morgun, en þá er einn söluhæsti dagur í smásölu víða um heim „Black Friday“. Um er að ræða yfir 500 starfsmenn í aðaldreifingarstöð fyrirtækisins þar í landi. Þetta kemur fram í frétt á CNBC.

Í fréttinni segir að Ítalir líkt og aðrar Evrópuþjóðir hafi tekið upp þennan bandaríska sið í auknum mæli á síðustu árum.

Þá hafa starfsmennirnir einnig ákveðið að setja á yfirvinnubann þar til 31. desember en mánuðurinn er yfirleitt umfangsmesti mánuðurinn í rekstri fyrirtækisins en þá bætir Amazon yfirleitt við sig lausráðnu aukastarfsfólki.