Starfsmenn í vöruhúsum netverslunarrisans Amazon í Þýskalandi og á Spáni lögðu niður störf í dag. Reuters greinir frá. Verkfallið kemur á versta tíma fyrir Amazon enda er dagurinn í dag hin svokallaði svarti föstudagur sem markar upphaf jólaverslunarinnar.

Það var þó ekki nema hluti starfsmanna sem lagði niður störf en 620 starfsmenn í tveimur vöruhúsum Amazon lögðu niður störf í dag í 24 klukkustundir. Meirihluti starfsmanna hélt þó áfram störfum.

Samkvæmt verkalýðsfélagi starfsmannanna var farið í aðgerðirnar til að krefjast bættra kjarasamninga sem eiga bæði að innihalda hærri laun en einnig að fyrirtækið tryggi heilbrigðar vinnuaðstæður.

Töluvert meiri þátttaka var í verkfallsaðgerðum á Spáni en á bilinu 85-90% starfsmanna í stærsta vöruhúsi Amazon á Spáni, San Fernando de Henares, lögðu niður störf samkvæmt verkalýðsfélagi starfsmannanna. Amazon á Spáni segir þær tölur þó rangar og að meirihluti starfsmanna væru að sinna pöntunum eins og venjulega.