Starfsmenn Arion banka fá 125 þúsund króna bónusgreiðslu fyrir jólin. Að auki fá þeir 30 þúsund króna gjafakort sem gildir í öllum verslunum, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Starfsmenn annarra viðskiptabanka fá ekki slíka bónusgreiðslu.

„Stjórn bankans ákvað í tilefni af þeirri viðurkenningu sem Arion banki fékk nýlega, þegar fagtímaritið The Banker, sem er gefið út af The Financial Times, valdi Arion banka sem banka ársins á Íslandi 2013, að þakka starfsfólki með þessum hætti fyrir vel unnin störf á þessu ári sem og á undanförnum árum,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs bankans, í samtali við blaðið. Starfsmenn bankans fá að auki körfu með ýmsu matarkyns og til heimilisins.

Ekki fékkst gefið upp hver jólagjöf starfsmanna annarra banka er þetta árið. Hjá Landsbankanum, Íslandsbanka og MP Banka fengust þau svör að jólagjafir starfsmanna frá bönkunum væru innpakkaðar og margir starfsmenn opnuðu þær ekki fyrr en á aðfangadag.