Starfsmenn bandaríska flugvélarisans Boeing hafa náð samkomulagi við stjórnendur félagsins og hættu í gær verkfallsaðgerðum sínum sem staðið hafa yfir frá því í byrjun september.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hefur verið undirritaður fjögurra ára samningur milli stríðandi aðila.

Um 27 þúsund starfsmenn Boeing hófu verkfallsaðgerðir þann 6. september síðastliðinn og hafa þær aðgerðir staðið yfir með mismunandi hætti síðan þá. Helsta baráttumál starfsmanna var eins og gefur að skilja hærri laun en einnig mótmæltu þeir aukinni útseldri vinnu og lífeyrisréttindum.

Fram kemur í frétt Reuters að samkvæmt greiningardeildum vestanhafs hafa verkfallsaðgerðir starfsmannanna kostað félagið um 100 milljónir dala á dag. Þá hefur afhending flugvéla tafist vegna þessa en á þeim tíma sem liðinn er hefur afhendingum fækkað um 40%.