Tveggja prósenta hlutur sem Landsbankinn hefur eignast í sjálfum sér mun á endanum renna til starfsmanna bankans. Unnið er að útfærslum á kerfinu en það þarf að vera í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupauka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Kerfið krefst jafnframt samþykktar á aðalfundi bankans. Aðalfundur var haldinn í gær og ljóst að samþykkt kerfisins bíður enn. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að menn ætli sér þó ekki að taka sér langan tíma til þess að vinna úr málum.

Á fimmtudag í síðustu viku var undirritað samkomulag milli þrotabús Landsbanka Íslands (LBI) og Landsbankans. Viðskiptabankinn gefur út skuldabréf að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt til gamla bankans.

Með útgáfu skuldabréfsins er endanlega greitt fyrir þær eignir sem Landsbankinn keypti af LBI við stofnun nýja bankans. Þessi skuld er til viðbótar við 260 milljarða króna skuldabréf sem gefið var út árið 2009 til gamla bankans. Á móti eignast ríkið hlut LBI í Landsbankanum, að undanskildum 2% sem munu renna til starfsmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.