Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að afhenda starfsmönnum félagsins allt að 0,19% af útgefnu hlutafé samhliða fyrirhuguðu hlutafjárútboði félagsins.

Eins og fram hefur komið stefnir Síldarvinnslan á skráningu félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. 27. maí næstkomandi. Á mánudaginn hefst almennt hlutafjárútboð félagsins og stendur til miðvikudagsins 12. maí.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í útboðinu verða boðnir til sölu þegar útgefnir hlutir að nafnverði 448 milljónir en heimilt verður að stækka útboðið um 51 milljón hluta gefi umfram eftirspurn tilefni til. Í lýsingu félagsins sem birt var þann 3. maí vegna fyrirhugaðrar skráningar kemur fram að félagið áformar að afhenda allt að 3,3 milljónir eigin hluti til starfsmanna félagsins.

Gunnþór Ingvason forstjóri segir um samþykktina:

„Með þessari aðgerð vill stjórn Síldarvinnslunnar hf. þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf hjá félaginu og undirstrika þann mikla styrk sem felst í öflugu starfsfólki, mikilvægi þeirra í velferð og árangri félagsins til framtíðar.“

Nánari útfærsla á afhendingu hlutanna til starfsmanna verður birt starfsmönnunum á vinnustöðum þeirra.

Afkoman góð í fyrra

Aðalfundur Síldarvinnslunnar var haldinn í gær og kom þar fram að afkoma félagsins var góð á árinu 2020. Nam hagnaður ársins 5,3 milljörðum króna, að því er kemur fram í frétt félagsins.

Stjórn félagsins var endurkjörin á fundinum en eftirtaldir eiga sæti í henni sem aðalmenn:

Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason, Ingi Jóhann Guðmundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Varamenn eru þau Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.

Á fundinum var samþykkt að greiða ekki arð af afkomu ársins 2020 en hagnaðurinn verði færður til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé.

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, vakti sérstaka athygli á því að Síldarvinnslan yrði eina fyrirtækið á landsbyggðinni sem skráð yrði á markaði eftir að skráning hefði farið fram síðar í þessum mánuði. Benti hann á að fyrirtæki í Neskaupstað ætti alls ekki minna erindi við almenning en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þá lagði hann áherslu á að þær hefðir sem skapast hefðu í kringum fyrirtækið í Neskaupstað hefðu ávallt verið virtar og hann treysti því að svo yrði áfram.