Starfsmenn Seðlabanka Evrópu munu í dag fara í verkfall í hálfa aðra klukkustund til að mótmæla kaupum og kjörum sínum en þetta er í fyrsta skipti í rúmlega 10 ára sögu bankans sem starfsmenn hans bregðast við með þessum hætti í kjarabaráttu sinni.

Starfsmennirnir ætla að safnast saman kl. 14 að staðartíma í dag, fyrir utan aðalbyggingu bankans við hlið evrumerkisins fræga og standa þar í eina og hálfa klukkustund.

Verkfallið kemur ekki á heppilegum tíma fyrir stjórnendur bankans því á morgun mun bankinn kynna stýrivaxtaákvörðun sína – talið er líklegt að stýrivextir verði áfram 1% - en Reuters fréttastofan greinir frá því í dag að dagarnir í kringum stýrivaxtaákvarðanir bankans eru iðulega mjög annasamir.

Stéttarfélag starfsmanna bankans, IPSO (International and European Public Services Organisation) hefur mótmælt fyrirhuguðum breytingum á starfskjörum starfsmanna. Þær breytingar sem lagðar hafa verið fyrir fela í sér hærri lífeyrisgreiðslur starfsmanna en félagið segir einnig að starfsmenn hafi, þrátt fyrir hærri greiðslur, ekki kost á því að geta hætt störfum fyrr en ella og tekið út lífeyrissparnað sinn. Þá segir stéttarfélagið að verið sé að skerða kjör starfsmanna um 15%.

Loks kvarta starfmenn undan því að lítið samráð hafi verið haft við þá við breytingar á kjörum þeirra og þeir ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Stjórnendur evrópska seðlabankans hafa þó lýst því yfir að þeir einir ákveði kjör starfsmanna og enginn annar. Þá hafa starfsmenn fengið bréf frá bankastjóra bankans, Jean-Claude Trichet og öðrum meðlimum bankastjórnarinnar að ákveðið hafi verið að draga verkfallstímann af launum starfsmanna.