Borgarráð samþykkti á fundi sínum 12. október að  veita leikskólakennurum og öðru starfsfólki leikskólanna eingreiðslu sem lið í aðgerðum til að mæta manneklu og efla mannauð í leikskólunum.

Eins og Viðskiptablaðið hafði sagt frá hugðist meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata til að byrja með einungis greiða yfirmönnum eingreiðsluna sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mótmæli.

Greiðslan sem nú hefur verið samþykkt kemur því til viðbótar eingreiðslu til stjórnenda í leikskólunum sem áður hafði verið samþykkt í ráðinu ásamt öðrum bráðaaðgerðum til að mæta auknu álagi á starfsfólk. Heildarkostnaður aðgerðanna er um 155 milljónir króna.

Viðbótarkostnaðurinn nemur 38,3 milljónum

Um var að ræða breytingatillögu meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata við viðaukatillögu Sjálfstæðisflokksins.  Heildarfjárhæð vegna þessa nemur 27,3 milljónum króna

Jafnframt samþykkti borgarráð viðaukatillögu Sjálfstæðisflokksins um eingreiðslu til starfsfólks frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva til viðbótar við áður samþykktar aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð í frístundastarfinu. Heildarfjárhæð vegna þessa nemur 11 milljónum króna.

Fá 20 þúsund króna eingreiðslu

Eingreiðslur til starfsfólks leikskóla, frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva munu nema 20.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem var í fullu starfi í september og  koma til útborgunar 1. desember.

Meðal þess sem áður hafði verið samþykkt sem bráðaaðgerðir í leikskólum til að mæta auknu álagi var aukið fjármagn til heilsueflingar, fjármagn til að fjölga starfsmannafundum utan dagvinnutíma, heimild til að greiða fyrir undirbúningstíma í yfirvinnu og fjármagn til kynningarstarfs til að laða að nýtt starfsfólk.

Heildarkostnaðurinn allt að 155 miljónir

Kostnaður vegna þeirra aðgerða  sem borgarráð hefur nú samþykkt til að mæta manneklu og bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla nemur í heild allt að 155 m. kr.  Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara kjara- og mannauðsdeild Reykjavíkurborgar hefur aðrar tillögur aðgerðateymis til að bregðast við manneklu til umfjöllunar.

Þá hafði borgarráð samþykkt fjárveitingu til að mæta auknu álagi á starfsfólk í frístundastarfinu og efla liðsheild, s.s. með hærri efnis- og rekstrarframlögum, eingreiðslu til stjórnenda og námsleyfi fyrir starfsmenn.

Kostnaður vegna þeirra aðgerða er áætlaður í heild um 32,75 m.kr. Öðrum tillögum aðgerðateymis var vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar.