„Auðvitað eru menn slegnir, það er engin spurning," segir Oddur Sigurðsson, varaformaður starfsmannafélags Glitnis. Í morgun gerðu stjórnendur bankans starfsmönnum grein fyrir tíðindum dagsins. Oddur segir að fundurinn hafi staðið yfir í um það bil hálftíma og að fullt hafi verið út úr dyrum.

Lárus Welding bankastjóri og Þorsteinn Már Baldvinnson stjórnarformaður töluðu á fundinum. Oddur segir að ekki hafi verið talað um neinar uppsagnir. „Þeir sögðu að haldinn yrði hluthafafundur fljótlega en það skiptir okkur engu máli hver á bankann. Við höldum áfram að vinna okkar vinnu."

Oddur segir að þrátt fyrir þetta sé baráttuandi innanhúss „en dagurinn fer örugglega í það að tala um þetta."