Hundruð starfsmanna Google og móðurfélags þess, Alphabet, hafa stofnað fyrsta verkalýðsfélag samstæðunnar sem er öllum starfsmönnum er opið, en verkalýðsfélög eru sjaldgæf sjón í tæknigeiranum þar ytra. Talið er að stofnun verkalýðsfélagsins geti reynst stjórnendum félagsins stærsta áskorunin til þessa.

Verkalýðsfélag starfsmanna Alphabet verður rekið af starfsmönnum og opið jafnt starfsmönnum í fullu starfi sem og verktökum samstæðunnar. Stjórn verður kjörin yfir félagið og verða starfsmenn verkalýðsfélagsins á launum.

Í tilkynningu um stofnun verkalýðsfélagsins segir Nicki Anselmo, verkefnastjóri, að þau hafi reynt á eigin skinni hve áhrifarík samstaða starfsmanna hefur reynst við að hafa áhrif á forystu samstæðunnar, meðal annars hvað varðar margra milljóna dollara greiðslur til stjórnenda sem hafa gerst sekir um kynferðislega áreitni.

Segir Anselmo verkalýðsfélagið veita formlegan vettvang til þess að tryggja að gildi þeirra sem starfsmanna Alphabet verði virt, jafnvel eftir að fyrirsagnir hafi fallið í gleymskunnar dá.

Gagnrýnendur mæta ógnunum, þöggun og uppsögnum

Í tilkynningunni kemur fram að helmingur starfsmanna Google séu ráðnir tímabundið eða sem verktakar og njóti þannig ekki sömu réttinga og fastráðnir starfsmenn. Þá hafi samstæðan gert ósiðferðislega opinbera samninga, meðal annars um drónastaðsetningar fyrir herinn, en haldið þeim leyndum fyrir starfsmönnum.

Þá hafi starfsmenn sem gagnrýnt hafa vinnubrögð samstæðunnar mætt ógnunum, þöggun og ólögmætum uppsögnum. Eina leiðin til að tryggja virðingu og áheyrn sé samstaða starfsmanna. Verkalýðsfélagið muni tryggja að starfsmenn geti með virkum hætti stuðlað að raunverulegum breytingum innan samstæðunnar, allt frá því hvers konar samningum samstæðan gengur að til kjaramála starfsmanna.

Verkalýðsfélagið er stofnað með stuðningi Communications Workers of America (CWA) og er fyrsta félagið innan bandarísks tæknirisa sem er stofnað af starfsmönnum og opið öllum starfsmönnum. Í tilkynningunni er stofnun félagsins sögð söguleg.