Starfsmönnum háskólanna fækkaði um 4,6% á milli ára í nóvember árið 2011 og höfðu þeir þá ekki verið færri síðan skólaárið 2005/2006. Á sama tíma fjölgaði nemendu við skólana um 1,7%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar .

Hagstofan segir að starfsmenn í skólum á háskólastigi hafi verið 2.902 í 2.147 stöðugildum í nóvember árið 2011. Þar af hafi 2.018 þeirra verið í 1.297 stöðugildum.

Þá kemur fram í upplýsingum Hagstofunnar að rúmur þriðjungur (33,7%) starfsmanna við kennslu í háskólum landsins í nóvember árið 2011 hafði doktorspróf. Það jafngildir 673 kennurum í 582 stöðugildum. Kennurum með doktorspróf fjölgaði umtalsvert á síðasta áratug því skólaárið 2001-2002 höfðu 24,4% háskólakennara doktorspróf. Háskólakennarar sem höfðu lokið annarri háskólagráðu, s.s. meistaragráðu, voru fjölmennasti hópur starfsmanna við kennslu eða 38,6% kennara. Háskólakennarar sem einungis höfðu grunnpróf af háskólastigi voru 23,6% kennara. Mun fleiri karlar en konur meðal háskólakennara höfðu lokið doktorsprófi eða 43,7% á móti 22,6% kvenkennara.

Þá voru rúmur helmingur (58,7%) starfsfólks við kennslu aðjúnktar og aðrir stundakennarar eða 1.216 manns. Stöðugildi þessa hóps voru 40,3% af stöðugildum starfsmanna við kennslu. Stundakennurum fjölgaði um 41 frá síðasta skólaári. Prófessorum við kennslu fækkaði hins vegar um 14 og lektorum um 31 en dósentum fjölgaði um 8. Þá fækkaði starfsfólki við skrifstofustörf og tölvuvinnslu um 145 en sérfræðingum og sérhæfðu starfsfólki fjölgaði um 108.