Rétt um mánuði eftir að laun forstjóra tónlistar- og ráðstefnuhallarinnar Hörpu voru hækkuð um rúmlega fimmtung í fyrra voru þjónustufulltrúum í húsinu tilkynnt um launalækkun að því er Fréttablaðið greinir frá. Einn þjónustufulltrúanna, sem sagði upp í kjölfar frétta af launahækkun forstjórans, segir að tilkynnt hafi verið um launalækkanirnar í september í fyrra.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var tapið af rekstri hússins 243,3 milljónir í fyrra , þrátt fyrir 260 milljóna aukið framlag ríkis og borgar. Launalækkunin fól að sögn starfsmannsins í sér 21,4% lækkun dagvinnutaxta en 12,7% lækkun kvöld- og helgarvinnutaxta. Auk þess voru fjöldi greiddra tíma af útköllum skertir.

Laun hækkuð eftir að voru ekki lengur undir kjararáði

Þetta gerist rétt um mánuði eftir að stjórn Hörpu ákvað að hækka laun Svanhildar Konráðsdóttur upp í 1.567 þúsund krónur. Það var gert skömmu eftir að laun hennar og fleiri stjórnenda voru ekki lengur undir ákvörðunarvaldi Kjararáðs, en sú ákvörðun tók gildi 1. júlí. Ráðið hafði hins vegar hækkað laun hennar nokkuð í febrúar sama ár en samkvæmt ákvörðun þess námu þau 1,3 milljónum króna.

Nýr samningur við þjónustufulltrúa í Hörpu tók gildi í byrjun þessa árs, en Svanhildur segir að samningunum við þá hafi verið sagt upp með fjögurra mánaða fyrirvara. Hún segir að þeim hafi áður verið greitt 40% álag umfram dagvinnutaxta kjarasamninga og 26% á yfirvinnu, auk 4 tíma lágmark óháð framlagi.

Samkvæmt nýjum samningi sé þeim nú greitt 15% umfram kjarasamninga, jafnt fyrir dagvinnu og eftirvinnu og aðeins greiddir 4 tíma lágmark fyrir helgarvinnu, en 3 í dagvinnu. Svanhildur staðfestir að lækkunin hafi ekki náð til annarra starfsmanna, þar með talið ekki til hennar sjálfrar og annarra stjórnenda. „En ég ítreka að þessi vinna er enn í fullum gangi og er engan veginn lokið,“ segir Svanhildur.