Starfsmenn Icelandair hafa fengið langmestar hlutabætur eða yfir 900 milljónir króna. Áætlanir og rekstur Icelandair Group hf. hafa raskast mjög eftir útbreiðslu kórónuveirunnar segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

„Í tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands þann 23. mars, tveimur dögum eftir að stjórnvöld kynntu hlutastarfaleiðina, kom fram að um 240 starfsmönnum yrði sagt upp og um 92% starfsmanna myndu nýta sér úrræði stjórnvalda. Fjárhagsleg áhrif útbreiðslu veirunnar voru þá enn óljós. Félagið tilkynnti svo þann 28. apríl uppsagnir um 2.000 starfsmanna úr öllum deildum þess. Meirihluti þeirra starfsmanna sem áfram yrðu hjá félaginu myndu sinna hlutastörfum og starfsmenn í fullu starfi sæta launalækkunum," segir í skýrslunni.

Heildarfjöldi stöðugilda Icelandair Group var að meðaltali 4.715 á árinu 2019. Samstæðan seldi 75% hlut sinn í Icelandair Hotels 3. apríl 2020.

Í svari Vinnumálastofnunar til Ríkisendurskoðunar 14. maí kom fram að 2.493 starfsmenn Icelandair ehf. hefðu fengið greitt samkvæmt úrræðinu. Hlutabætur vegna þeirra námu alls 926,1 m.kr. í mars og apríl. Greiðslur til 502 starfsmanna Flugleiðahótela hf. námu 248,1 m.kr. Þar af voru greiðslur í mars 87,2 m.kr. Félögin tvö fengu hæstu samanlögðu greiðslurnar frá Vinnumálastofnun vegna hlutabóta á tímabilinu.

Hlutabætur vegna 106 starfsmanna Iceland Travel í mars og apríl námu 42,5 m.kr., vegna 148 starfsmanna Flugfélags Íslands 40,3 m.kr. og 11,3 m.kr. vegna 37 starfsmanna Icelandair Cargo. Að lokum námu hlutabætur vegna 26 starfsmanna Feria 7,4 m.kr. og 1,6 m.kr. vegna sex starfsmanna Loftleiða-Icelandic.

Heildargreiðsla vegna hlutabóta til starfsmanna fyrirtækja Icelandair Group, og vegna greiðslna til Flugleiðahótela í marsmánuði, nam því 1.116 m.kr. Heildarfjöldi starfsmanna sem fékk greitt samkvæmt úrræðinu var 3.318. Af þeim voru eins og áður segir 502 starfsmenn Flugleiðahótela.