Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, sendi starfsmönnum félagsins tölvupóst í gær þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af hækkandi olíuverði sem muni hafa áhrif á rekstur félagsins. Eyjan greindi frá í gærkvöldi. Orðrétt segir í bréfinu:

„Í stuttu máli hefur þetta mikil áhrif á rekstur Icelandair. [...] Svona mikil hækkun á eldsneytisverði breytir hins vegar öllum afkomuspám og þar dugar hækkun eldsneytisgjalds á farseðla skammt.“

Icelandair Group, sem er skráð í Kauphöll Íslands, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að félagið hafi ekki breytt afkomuspá sinni sem gefin var út þann 14. febrúar síðastliðinn. „Spáin gerði ráð fyrir EBITDA upp á 9,5 milljarða króna. Umfjöllun framkvæmdastjórans vísar til lækkunar á áætlaðri EBITDA fyrir árið 2011 frá rauntölum ársins 2010 upp á um 3 milljarða króna, þrátt fyrir verulega framboðsaukningu á milli ára, sem þegar hefur verið tilkynnt um. Helstu skýringar á þessari lækkun liggja í eldsneytishækkunum á milli ára og fleiri þáttum eins og nánar var tilgreint í tilkynningu þann 14. febrúar sl.,“ segir í tilkynningunni til Kauphallar.