Stjórn Íslandsbanka hefur ákveðið að greiða starfsfólki bankans kaupauka vegna rekstrarárangurs á liðnu ári. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að greiddur verði 223 þúsund króna kaupauki til hvers starfsmanns miðað við fullt starf.

Kaupaukinn verður greiddur út í formi hlutafjár og er miðað við 18,6 krónur á hlut eða að meðaltali 7.143 hlutir þegar tekið hefur verið tillit til skattgreiðslna og annarra gjalda.

Á aðalfundi verður lagt til að greiða hluthöfum 0,38 krónur á hlut í arð eða alls 5,36 milljarða króna. Þetta er 28% af hagnaði liðins árs, sem nam 19,1 milljarði. Viðmiðunardagur arðsúthlutunar er í lok aðalfundardags og verður arður greiddur út 14 mars 2006. Hluthafar eiga þess kost að fá arðinn greiddan í formi hlutabréfa og er miðað við gengið 18,60 krónur á hlut.