Háttsettir menn hjá Kaupþingi fyrir hrun tóku stöðu gegn krónunni áður en hún féll fyrri hluta árs 2008. Þetta er fullyrt í nýjustu útgáfu vefritsins Kjarnans , sem kom út í dag. Þar er vísað í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterHouseCooper þar sem upplýsingar um þetta munu koma fram.

Á meðal þeirra sem munu hafa átt slík viðskipti, að sögn Kjarnans voru þeir Ingvar Vilhjálmsson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Hannes Frímann Hrólfsson, aðstoðarframkvæmdastjóri markaðsviðskipta, en einnig Steingrímur Páll Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar, og Þórarinn Sveinsson, sem var framkvæmdastjóri eignastýringar og einkabankaþjónustu.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sagt frá því að Kaupþing hafi keypt gríðarlegt magn af gjaldeyri á millibankamarkaði í lok árs 2007 og í upphafi árs 2008. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að Kaupþing var ekki bara að kaupa gjaldeyri fyrir eigin reikning, heldur líka fyrir stærstu viðskiptavini og eigendur. Upplýsingar um kaup háttsettra starfsmanna munu hins vegar vera nýjar.