Vegna góðrar afkomu Kviku á síðasta ári fær hópur starfsmanna bankans samtals um 550 milljóna króna í arð.

Var þetta samþykkt á aðalfundi bankans á dögunum þegar ákveðið var að greiða arð til hluthafa í B-flokki að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Á síðasta ári nam hagnaður bankans 1.930 milljónum króna, en eigendur B-hluta í bankanum eiga rétt til arðs er nemur 35% árlegs hagnaðar fyrir tekjuskatt, að því gefnu að hagnaðurinn sé umfram 6% arðsemi eiginfjár.

Arðsemi eigin fjár árið 2016 nam 34,7%, en eigendur B-hluta eru ýmsir starfsmenn Kviku, en ekki liggur fyrir hve margir þeir eru né hve stóran hluta hver þeirra eigi.

Í árslok 2016 nam eigið fé bankans 7.350 milljónum króna sem er aukning um meira en 1.150 milljónir á milli ára.

Er aukningin þrátt fyrir um milljarðs króna hlutafjárlækkunar á fyrri hluta ársins sem var greidd út til hluthafa, en stærstu eigendur bankans eru VÍS og Lífeyrissjóður verzlunarmanna.

Á aðalfundinum var skipt um tvo stjórnarmenn, fóru þau Anna Skúladóttir, móðir Skúla Mogensen sem seldi allan hlut sinn í Kviku nýlega, og Finnur Reyr Stefánsson, fjárfestir og fyrrverandi varaformaður stjórnar, úr henni, en í stað þeirra komu þau Guðmundur Örn Þórðarson, fjárfestir og hluthafi í VÍS og Hrönn Sveinsdóttir, fjármálastjóri Vodafone.