Landsbanki Íslands og Alþjóðahúsið hafa gert með sér samstarfssamning um menntun starfsfólks bankans í málefnum innflytjenda á Íslandi. Tólf starfsmenn úr jafnmörgum útibúum Landsbankans, víðsvegar að af landinu sitja þessa dagana á námskeiði og sérhæfa sig í málefnum innflytjenda. Hlutverk þessara fulltrúa verður að þjóna og leiðbeina útlendingum sem eru viðskiptavinir bankans ásamt því að aðstoða aðra starfsmenn bankans í þessum efnum.

"Þjóðfélag okkar verður sífellt fjölbreyttara og það er mikilvægt fyrir okkur að geta veitt öllum viðskiptavinum okkar vandaða þjónustu." segir Atli Atlason framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbankans. ?Þessum námskeiðum hefur verið afar vel tekið af starfsmönnum bankans. Þeir hafa lært heilmargt um siði og venjur innflytjenda og það getur ekki annað en hjálpað til við að ná settu marki okkar, sem er að veita þjónustu sem ber vott um insæi, skilning og áhuga á að leysa úr málum viðskiptavina okkar," er haft eftir honum í tilkynningu frá bankanum.