Bankaráð Landsbankans leggur til að hluthöfum verði greiddur út 70% af hagnaði bankans í fyrra í formi arðs. Gangi það eftir munu starfsmenn bankans sem fengu hlutabréf gefins í bankanum í fyrra rétt rúmar 143,8 milljónir króna sem þeir skipta á milli sín að öllu óbreyttu. Ekki hefur verið tekið tillits til skatta og gjalda af arðgreiðslunni. Heildarupphæðin gæti hækkað verulega fyrir aðalfund Landsbankans. Samkvæmt samkomulagi á milli gamla bankans og þess nýja áttu starfsmenn nýja bankans rétt á 2,08% af öllu hlutafé bankans. Þeir eiga hins vegar enn 0,5% hlut.

Hagnaður Landsbankans nam 28.759 milljónum króna á síðasta ári. Arðgreiðslan af þeirri upphæð nemur 20,1 milljarði króna. Ríkið á 97,9% hlut og fær í sinn hlut rúmlega 19,1 milljarð króna.

Þetta verður önnur arðgreiðslan sem starfsmenn bankans fá. Í október í fyrra greiddi Landsbankinn í fyrsta sinn eftir hrun tæpa 10 milljarða króna í arð. Þar af fengu starfsmenn um 50 milljónir króna. Meðalgreiðslan sem hver og einn fékk nam á bilinu 25-30 þúsund krónum að frádregnum fjármagnstekjuskatti en án tillits til skatta og gjalda.

Fá hlutabréfin í bútum

Í júlí í fyrra fengu starfsmenn Landsbankans afhent innan við 1% hlut í Landsbankanum í samræmi við fjárhagslegt uppgjör hans við gamla Landsbankann og ríkið. Samkomulagið fól í sér að allir starfsmenn bankans og Landsbréfa, sem voru fastráðnir þann 31. mars árið 2013 auk þeirra sem höfðu látið af störfum vegna aldurs, örorku eða verð sagt upp í hagræðingarskyni, fengi hlutabréfin afhent. Fjöldi hlutabréfa sem hver starfsmaður fékk í sinn hlut var hlutfallslegur og miðaðist við föst laun og starfstíma hjá bankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013. Starfsmenn bankans undirgengust ströng skilyrði um sölu hlutabréfanna og var þeim ekki heimilt að selja þau fyrr en eftir þrjú ár frá afhendingu. Þeim var þó heimilt að selja 60% bréfanna fyrr verði hlutabréf bankans skráð á markað. Að auki er starfsmönnum bankans óheimilt að veðsetja hlutabréfin.

Eftir greiðslu skatta og gjalda í fyrra fór hlutabréfaeign starfsmanna Landsbankans niður í 121.323.333 hluti í bankanum af 24.000.000.000 hlutum eða 0,5% hlut. Sama hlutfall stendur enn. Samkvæmt upplýsingum VB.is á enn eftir að ákveða með afhendingu þeirra hlutabréfa sem út af standa.