Hundruða ökumanna og lagerstarfsmanna í vöru- og dreifingarmiðstöð Iceland-verslunarkeðjunnar í norðurhluta London gengu út úr vinnu eftir hádegi í dag og hófu sólarhringsverkfall, en starfsmennirnir krefjast hærri launa. Frá þessu er greint í breskum fjölmiðlum í dag en Baugur er eigandi Iceland.

Vöru- og dreifingarmiðstöðin er ekki rekin af Iceland-keðjunni heldur af DHL Exel. Starfsmenn höfðu áður hafnað tilboði um 2,4% launahækkunar frá DHl.

Starfsmenn munu einnig leggja niður vinnu í einn sólarhring næsta föstudag og í tvo sólarhringa 21. desember, ef samningar nást ekki.

Talsmaður verkalýðsfélags starfsmannanna (The Transport and General Workers Union), Peter Kavanagh, segir að DHL Exel og Iceland vegni mjög vel þessa dagana, og að Iceland sjái sér fært að styrkja sjónvarpsþáttinn "Im A Celebrity... Get Me Out of Here," en neiti að deila ágóðanum með starfsmönnunum sem sjái til þess að vörur komist til skila í verslunirnar.

Vöru- og dreifingarmiðstöðin annast dreifingu til um 180 verslana hjá Iceland.

Í breskum fjölmiðlum er einnig greint frá því að 63 ára starfsmaður, sem tók þátt í mótmælum við dreifingarstöð Iceland í Enfield, hafi orðið fyrir árás öryggisvarðar og hafi þurft að leita sér læknishjálpar í kjölfarið. Atvikið mun hafa verið kært til lögreglu.

Verkalýðsfélagið segir að DHL Exel hafi ráðið til sín 15 öryggisverði og sakar þá um að hóta og ógna starfsmönnunum sem voru við mótmæli.

Verkalýðsfélagið sakar DHL Exel um að eyða miklum fjármunum í að brjóta upp verkfallið og segir að peningunum hefði verið betur varið í að semja um laun starfsmannanna.