Alþjóðlegi fjáröflunardagurinn Tour de Marel verður haldinn á föstudag. Þetta er annað skiptið sem dagurinn er haldinn. Starfsmenn Marel víða um heim munu þá safna áheitum til styrktar SOS barnaþorpum á Fílabeinsströndinni. Fjáröflunardagurinn verður haldinn í Kaplakrika og munu starfsmenn Marel keppa í örfótboltamóti. Liðin sem þátt taka í mótinu safna áheitum með því að setja upp söfnunarþrep. Þá verður uppskriftabók Marel til sölu á mótinu og mun ágóði af sölu hennar renna til söfnunarinnar. Fénu m.a. varið til uppbyggingar grunnskóla í nýju SOS barnaþorpi í Yamoussoukro á Fílabeinsströndinni.

Hermann Hreiðarsson fótboltamaður og sendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi, tekur þátt í mótinu.

153 milljónir barna án foreldra

Fram kemur í tilkynningu frá Marel að talið sé að meira en 153 milljónir barna í heiminum hafi misst annað eða báða foreldra sína og standi berskjölduð frammi fyrir stríðsátökum, fátækt og öðrum utanaðkomandi vágestum. SOS barnaþorpin eru alþjóðleg barnahjálp sem leitast við að veita munaðarlausum og yfirgefnum börnum  öruggt skjól og umhyggju. Alls starfrækja samtökin 500 barnaþorp út um allan heim.

Í fyrra söfnuðu starfsmenn Marel víða um heim átta milljónum króna til styrktar ýmsum góðgerðarsamtökum. Hér á landi söfnuðust tvær milljóni króna sem runnu til Krabbameinsfélags Íslands. Nú þegar er búið að safna rúmlega einni milljón króna.

Tekið verður á móti áheitum á síðunni www.tourdemarel.com til 30. september en þá lýkur átakinu.