Um tíu lykilsstjórnendur í Straumi fjárfestingarbanka eignuðust um 30% hlut í honum við lok síðasta árs. Forstjórinn Pétur Einarsson segir í samtali við Morgunblaðið það jákvætt að íslenskir starfsmenn eigi hlut í fyrirtækinu enda séu þar tvinnaðir saman hagsmunir þeirra og eigandans ALMC.

Í blaðinu segir að undir lok síðasta árs hafi starfsmenn verið 35 sem er tvöfalt en við lok árs 2011. Síðasta ár var hins vegar fyrsta heila starfsár bankans en hann fékk fjárfestingarbankaleyfi 1. september í hittifyrra.

Eins og vb.is greindi frá í morgun námu heildarlaun Péturs 41,5 milljónum króna í fyrra. Það jafngildir um 3,5 milljónum króna á mánuði. Heildarlaun námu rétt rúmum 776 milljónum króna samanborið við 307,5 milljónir króna árið 2011. Ef upphæðinni er deilt niður á 35 starfsmenn gerir það að jafnaði rúmar 1,8 milljónir króna á mánaðarlaun á mann.