Starfsmönnum á borpöllum Shell og Transocean í Norðursjó verður stefnt í megrun til að minnka kostnað fyrirtækjanna við að flytja þá til og frá borpöllunum. Starfsmenn á olíuborpöllum eru fluttir milli lands og borpalls með þyrlu og skiptir hvert kíló máli í þeim flutningum.

Er miðað við að þeir starfsmenn sem eru með mittismál yfir 37 tommum (94 sentimetrum) hugi að mataræði sínu og líkamsrækt. Á síðustu tíu árum hefur meðalþyngd starfsmanna á olíuborpöllum fyrirtækjanna tveggja aukist um 20 kíló.

Þyrluflotinn í Norðursjó hefur átt í auknum vandræðum við að anna flutningum, einkum eftir að bannað var að fljúga þyrlum af gerðinni EC 225 Super Puma eftir slys í október í fyrra.