Hálsbindi rokseljast nú í Bretlandi þar sem karlpeningurinn gerir sitt besta til að líta sem best út og bæta ímynd sína á vinnustað en miklar uppsagnir hafa verið á meðal fjármálafyrirtækja í Lundúnum líkt og annars staðar í heiminum.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Daily Telegraph en haft er eftir forstjóra herrafatatískuverslunarinnar Moss Bros, Philip Mountford að fólk reyni hvað það getur að bæta útlit sitt og ímynd þegar niðurskurðarhnífarnir eru á lofti.

Fram kemur í blaðinu að sala á bindum hafi aukist um 50% síðasta hálfa árið og segir áberandi að ungir karlmenn er starfa í fjármálageiranum versli nú fleiri bindi en áður.

„Þegar herðir að, peningar liggja ekki á lausu og atvinnuleysi eykst þá vill vitundin um útlitið oft aukast líka þar sem fólk leggur það á sig að líta vel út í vinnunni og eins ef það þarf að fara að leita að nýrri vinnu,“ segir Mountford.

Þá virðast rauð bindi einhverra hluta vegna einstaklega vinsæl en salan á þeim hefur aukist um 1.000% síðustu sex mánuði en næst á eftir koma svört mjó bindi en salan á þeim hefur aukist um 200% á sama tíma.

Hvað kvenfólkið varðar greinir blaðið frá því að sala á minni snyrtivörum, svo sem varalit hefur aukist nokkuð auk þess pilsin verða síðari, þ.e. að kvenfólk kaupir sér pils í auknum mæli sem ná niður fyrir hné.

Í lok júlí greindi tískuvörukeðjan John Lewis frá því að sala á varalit hefur aukist um 20% og svipaða sögu er að segja um sölu á augnskugga og kinnalit.