Starfsmenn Ríkisskattstjóra vinna nú baki brotnu að úrvinnslu umsókna um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Vinna þarf úr 69 þúsund umsóknum.

„Hér hefur fólk unnið fram á nótt í mjög langan tíma og hjá þeim sem unnu mest náði sólarhringurinn alveg saman,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, í samtali við Fréttablaðið .

Hjá Ríkisskattstjóra starfa um 270 manns en 80 starfsmenn hafa komið að vinnu við skuldaleiðréttinguna. Skúli segir við Fréttablaðið að starfsfólkið þurfi að skoða skattframtöl margra umsækjenda fimm til sex ár aftur í tímann að þeirra beiðni. Margir þeirra hafi skipt um maka og húsnæði og lán þeirra tekið breytingum á tímabilinu, sem geri úrvinnsluna öllu flóknari.