Nokkrir starfsmenn Seðlabanka Íslands hafa mætt til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknar embættisins á málefnum Landsbankans. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur enginn starfsmaður bankans réttarstöðu grunaðs manns. Skýrslur af flestum voru teknar í síðustu viku en Sigurður Sturla Pálsson, yfirmaður alþjóða- og markaðssviðs, var boðaður til yfirheyrslu sl. mánudag. Hann var erlendis þegar sérstakur saksóknari gerði húsleit í bankanum fyrir viku síðan.

Seg í fréttinni að ekki hafi stoðað að óska eftir upplýsingum úr bankanum vegna bankaleyndar. Gögn hefðu ekki fengist afthent nema að fengnum úrskurði dómstóla og því var farið í húsleit.

Málið snýst um millifærslur á fimmtán milljörðum út af reikningum Landsbankans í Seðlabankanum til MP banka og Straums. Starfsmenn Seðlabankans þurftu ekki að hafa milligöngu um millifærslurnar, heldur gátu reikningshafar séð alfarið um þær, segir í frétt Fréttablaðsins.