Tveir fulltrúar frá embætti sérstaks saksóknara mættu á skiptafund kröfuhafa Milestone í gær. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þeir hafi verið þar staddir vegna rannsóknar embættisins á tilfærslum fjárfestingaeigna frá Milestone til tryggingafélagsins Sjóvár, sem áður var dótturfélag Milestone.

Grunur leikur á um að fyrrum eigendur Milestone hafi tekið fé út úr Sjóvá en sett verðminni fjárfestingaeignir inn í félagið í staðinn. Vegna þessara tilfærslna vantaði sextán milljarða króna inn í Sjóvá til að félagið uppfyllti lögbundið skilyrði um gjaldþol og eigið fé. Sjóvá átti því ekki fyrir vátryggingaskuld sinni.

Leitað á tíu mismunandi stöðum í byrjun júli

Embættið hefur haft tilfærslur á fjárfestingaeignum frá Milestone til Sjóvar, sem áður var dótturfélag Milestone, til rannsóknar frá 25. mars síðastliðnum þegar Fjármálaeftirlitið (FME) vísaði málinu þangað. Þegar nýtt félag var stofnað í kringum vátryggingarekstur Sjóvár fyrr á þessu ári voru sextán milljarðar króna lagðir til félagsins svo það uppfyllti lögbundin skilyrði um gjaldþol og eigið fé.

Þar af lagði fjármálaráðuneytið til 11,6 milljarða króna í formi krafna á Askar Capital vegna veðlánaviðskipti sem bankinn hafði milligöngu um. Sjóvá gat á þeim tíma ekki staðið við vátryggingaskuld sína og var það ein helsta ástæðan fyrir því að leggja þurfti félaginu til fé.

Með öðrum orðum þá skuldaði Sjóvá marga milljarða í hinn svokallaða bótasjóð sem á að standa undir tjóni þeirra sem tryggja hjá félaginu. Sérstakur saksóknari framkvæmdi húsleit á tíu mismunandi stöðum vegna rannsóknar sinnar á Sjóvá í byrjun júlí.

Þá var meðal annars leitað í höfuðstöðvum Milestone og á heimilum helsta eiganda félagsins,  Karls Wernerssonar, og fyrrum forstjóra þess, Guðmundar Ólasonar.

Samvinna milli þrotabús og sérstaks saksóknara

Í skýrslu skiptastjóra Milestone kemur fram að hann hafi tekið skýrslu af  helstu forráðamönnum félagsins,bræðrunum Karli og Steingrími Wernerssonum, og forstjóranum Guðmundi Ólasyni. Fram kemur að skýrslutaka yfir Steingrími hafi farið fram í London október. Í skýrslunni lýsir skiptastjórinn samskiptum sínum við sérstakan saksóknara.

Þar segir að þann 23. september 2009 hafi hann farið á fund starfsmanna sérstaks saksóknara. Ástæðan var sú að við húsleitirnar í júlí hafði embættið lagt hald á hluta af bókhaldi Milestone og önnur gögn sem koma að rekstri þess. Embætti sérstaks saksóknara hafi þá upplýst hann um að búið fengi fullan aðgang að þeim gögnum sem haldlögð höfðu verið í þeim húsleitum.

Auk þess segir orðrétt að skiptastjórinn hafi „átt fleiri fundi með starfsmönnum embættisins, enda getur sú rannsókn sem þar fer fram nýst skiptastjóra við uppgjör þrotabúsins.“