Útgöngubannið í Sjanghæ í Kína hefur valdið Tesla verulegu fjárhagstapi. Bílaframleiðandinn þurfti að loka verksmiðju sinni í borginni í þrjár vikur. Verksmiðjan lokaði 28. mars en opnaði aftur á miðvikudaginn síðasta eftir að yfirmönnum Tesla tókst að ná samningum við yfirvöld í borginni.

Um 8.000 starfsmenn máttu þá snúa til baka en mega ekki yfirgefa verksmiðjuna og hafast því við allan sólarhringinn í verksmiðjunni. Rafbílaframleiðandinn hefur útvegað starfsfólki svefnpoka og dýnur. Starfsfólki ber að fara daglega í PCR próf og þrífa hendur sínar fjórum sinnum á dag samkvæmt bréfi til starfsmanna sem Bloomberg hefur undir höndum. Þetta ástand mun vara að minnsta kosti til 1. maí en gæti vel dregist á langinn.

Embættismenn í Sjanghæ hafa hvatt fyrirtæki til að hefja framleiðslu að nýju í kjölfar útgöngubanns, sem lagt var á út af Covid-19 farsóttinni, og meðal annars lagt til að starfsfólki verði útvegað gistiaðstöðu í verksmiðjum.

Sjá einnig: Tesla hagnast um 3,3 milljarða dala

Verksmiðja Tesla í Sjanghæ framleiddi rúmlega helming allra Tesla í fyrra og er arðbærasta verksmiðja rafbílaframleiðandans. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 2.100 bílar á dag og framleiðslutapið við lokunina síðustu vikurnar var því um 50 þúsund bílar. Óvíst er hvort verksmiðjan nái fullum afköstum fyrst um sinn.

Tekjutap Tesla vegna lokunarinnar er metið á 2 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar um 250 milljörðum króna. Kostnaður hefur hækkað töluvert m.a. vegna lokana í Kína og stríðsins í Úkraínu en hagnaður á hvern bíl er í kringum 25% af tekjum.