Starfsmenn kínverska samfélagsmiðilafyrirtækisins TikTok stunduðu skipulagðar njósnir um Cristina Criddle, blaðamann Financial Times í fyrra. Financial Times greinir frá þessu en fjölmiðillinn fékk veður af njósnum fyrirtækisins eftir dularfullt símtal frá almannatengslafulltrúa TikTok sem var með slæma samvisku yfir málinu.
Í kjölfarið fékk FT afhent gögn um innri rannsókn fyrirtækisins á málinu en þar kemur fram að tveir bandarískir starfsmenn og tveir starfsmenn í Kína fóru í gegnum persónuupplýsingar Criddle og fylgdust með ferðum hennar í von um að hafa uppi á heimildarmönnum hennar, en hún hefur skrifað fjölmargar fréttir um TikTok.
Hljóð og mynd fer ekki saman
TikTok hefur ítrekað neitað því að kínverskir starfsmenn fyrirtækisins hafi aðgang að upplýsingum um bandaríska notendur en nú er ljóst að hljóð og mynd fer ekki saman.
Á síðustu mánuðum hafa stofnanir og stjórnvöld í vestrænum ríkjum verið að banna starfsmönnum og stjórnmálamönnum að nota smáforritið vegna öryggis- og persónuverndarsjónarmiða.
Þá óttast öryggisstofnanir tengsl móðurfyrirtækisins Bytedance við kínverska ríkið og skyldu þeirra til að deila upplýsingum með ríkinu sé þess óskað, samkvæmt kínverskum lögum.
Óttaðist um heimildarmenn sína
Rétt er að taka fram að Financial Times gat ekki staðfest hvort upplýsingum um Criddle hafi verið deilt með yfirvöldum í Kína en Criddle segir að njósnir þeirri veki upp óhug engu að síður.
„Ég var í miklu uppnámi og reyndi eftir bestu getu að rifja upp hvar og hvenær ég hitti heimildarmenn mína,“ segir Criddle í samtali við vinnuveitanda sinn.
Samkvæmt innanhúss rannsókn TikToks komst fyrirtækið ekki að því hverjir heimildarmenn hennar voru en Criddle segir hegðunina engu að síður varhugaverða.
„Þeir fylgdust með ferðum mínum bæði í og utan vinnu þar sem þeir voru að fylgjast með persónulega farsímanum mínum,“ segir Criddle en hún hélt úti TikTok reikningi fyrir köttinn sinn.
Aðgengi starfsmanna vekur óhug
Criddle segir það óþægilegt að vita að því að fjórir einstaklingar, þar af tveir í Kína, hafi verið að fylgjast með ferðum sínum og skoða persónuleg gögn í símanum sínum.
„Þetta er nákvæmlega það sem TikTok hefur sagt að það myndi aldrei gera,“ segir Criddle og bætir við að þetta opni á spurningar um hversu mikið aðgengi venjulegir starfsmenn TikTok hafa að persónuupplýsingum notenda.
Yfirvöld í Peking hafa neitað því að vera nota smáforritið til að njósna og hefur Shou Chew, framkvæmdastjóri TikTok tekið í sama streng.

„Engu að síður voru tveir starfsmenn í Kína með aðgang að mínum gögnum. Maður veltir fyrir sér hvaða varnir eru til staðar,“ segir Criddle sem hefur ekki fengið svör frá fyrirtækinu um hvernig og af hverju þeir gátu skoðað símann hennar.
Utanríkisráðuneytið er eina ráðuneytið á Íslandi sem hefur bannað starfsmönnum sínum að nota TikTok vegna ótta um að upplýsingum verði deilt með kínverskum stjórnvöldum. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, hefur einnig sagt fulla ástæðu til að varast forritið.