Starfsmenn Veðurstofunnar báru af öðrum starfsmönnum undirstofnana Umhverfisráðuneytisins í utanlandsferðum fyrstu níu mánuði ársins. Af 333 utanlandsferðum sem starfsmenn fóru voru 94 á vegum Veðurstofunnar. Heildarkostnaður vegna fargjalda og greiddra dagpeninga hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess var 52,1 milljón króna og þar af voru rúmar þrettán milljónir vegna utanlandsferða Veðurstofunnar. Kemur þetta fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar, Alþingismanns.

Næstflestar ferðir voru farnar á vegum Umhverfisstofnunar, eða 84 og heildarkostnaður vegna þeirra voru tæpar 8,2 milljónir króna. Starfsmenn ráðuneytisins sjálfs fóru í 42 ferðir á fyrstu níu mánuðum ársins og var kostnaður vegna þeirra 10,6 milljónir króna.

Þetta þýðir að kostnaður á hverja ferð hjá ráðuneytinu sjálfu var 253.086 krónur, kostnaður á hverja ferð hjá Veðurstofunni var 138.357 krónur og hjá Umhverfisstofnun 97.163 krónur. Hver ferð á vegum ráðuneytisins var því um tvöfalt dýrari en þær sem farnar voru á vegum undirstofnananna.