*

þriðjudagur, 20. október 2020
Erlent 21. mars 2020 08:34

Starfsmenn Walmart fá 77 milljarða bónus

Ráða að auki 150 þúsund tímabundna starfsmenn, vegna álagsins sem kórónuveiran hefur skapað.

Ritstjórn
epa

Verslunarrisinn Walmart ætlar að borga fastráðnum starfsmönnum sínum samtals 550 milljónir dollara (um 77 milljarða króna) í bónusa, auk þess að ráða 150 þúsund tímabundna starfsmenn, vegna mikillar eftirspurnar sem ástandið vegna kórónuveirunnar hefur skapað í Bandaríkjunum. WSJ greinir frá þessu.

Fyrirtækið, sem er með um 1,5 milljónir starfsmanna á sínum snærum í Bandaríkjunum, hefur átt í fullu fangi með að fylla á hillur verslana sinna og afgreiða netpantanir, en Bandaríkjamenn hafa verið duglegir við að birgja sig upp af mat og heimilisvörum vegna kórónuveirunnar. Walmart hefur þrátt fyrir allt haldið verslunum sínum opnum en hafa stytt opnunartíma verslana og sett takmarkanir á hve mikið má kaupa í einu af tilteknum vörum.

Hver starfsmaður í fullu starfi mun fá greidda 300 dollara frá fyrirtækinu en hlutastarfsmenn fá 150 dollara. Þar að auki mega starfsmennirnir reikna með bónusum fyrir fyrsta ársfjórðung ársins.     

Stikkorð: Walmart kórónuveira