Fyrrum starfsfólk hins gjaldþrota flugfélags Wow air getur vænst þess að fá greidd laun úr ábyrgðarsjóði launa eftir miðjan júlí að því er RÚV greinir frá. Eins og Viðskiptablaðið sagði fyrst frá á sínum tíma hætti félagið starfsemi og fór í gjaldþrot þann 28. mars síðastliðinn, nokkrum dögum fyrir útborgunardag launa, og hafa fyrrum starfsmenn beðið síðan eftir launum sínum.

Sveinn Andri Sveinsson, annar tveggja skiptastjóra þrotabúsins segir forgangskröfum eins og laun, launatengd gjöld og greiðslur í lífeyrissjóði haldið til hliðar, og unnið úr þeim málum í samráði við stéttarfélögin.

Fyrst muni þrotabúið hafna eða samþykkja lýstum launakröfum, sem séu svo sendar ábyrgðarsjóði launa sem samkeyri upplýsingarnar og borgi síðan  starfsfólki upp í ógreidd laun. Ábyrgðarsjóðurinn eignar síðan kröfu á þrotabúið.

Býst Sveinn Andri ekki við því ábyrgðarsjóðurinn greiði út fyrr en í fyrsta lagi eftir að hefðbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti júli í júlímánuði.

Segir hann að nú þegar hafi stöku kröfulýsingar frá launafólki Wow air borist þrotabúinu en í heildina eru kröfurnar orðnar nokkur þúsund talsins. Býst hann við að VR, Flugfreyjufélagið og Félag íslenskra atvinnuflugmanna bæti við nokkrum fjölda kröfulýsinga.

Sveinn Andri sagði engar alvöru viðræður hafa átt sér stað við þrotabúið um kaup á verðmætum úr því, þó þreifingar í þá áttina hafi átt sér stað.