Launþegum hefur fjölgað mikið milli ára í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, en þess utan hefur launþegum fjölgað mikið hjá starfsmannaleigum, sem margar leigja starfsmenn til fyrirtækja í byggingariðnaði. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hefur launþegum fjölgað í landinu um 4,5% milli ára.

Hins vegar hefur launþegum fækkað í greinum tengdum sjávarútvegi, fræðslustarfsemi og í opinberri stjórnsýslu. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar þar sem borin eru saman tímabilið frá því í október í fyrra til september í ár við sama tímabil árið á undan.

17% fjölgun starfa í ferðaþjónustu

Voru 1.602 launagreiðendur og um 25.900 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu í september síðastliðinn. Hafði þeim þá fjölgað um 3.800 eða um 17% samanborið við september 2015.

Í byggingastarfsemi og hjá starfsmannaleigum hafði launþegum á sama tíma fjölgað um 1.800 eða um 20%.

Hagstofan tekur fram að í þessum tölum séu ekki upplýsingar um einyrkja með eigin rekstur, sem er er algengt í byggngariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum sem dæmi.