Á síðustu dögum og vikum hefur starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara fjölgað um átta og eru þeir nú ríflega hundrað talsins.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að fjölgunin sé í samræmi við áætlanir embættisins og fari ekki út fyrir fjárheimildir. „Við höfum verið að fjölga starfsfólki í samræmi við þarfir embættisins, en í stað þess að ráða alla nýju starfsmennina í einu höfum við ráðið þá í nokkrum smærri hópum. Það er gert til að minnka truflun hjá því starfsfólki sem fyrir er, því nýja starfsmenn þarf að þjálfa. Þá hefur eitthvað verið um að starfsmenn hafi hætt hjá okkur, t.d. þeir sem fengnir voru að láni hjá öðrum embættum þegar embætti sérstaks saksóknara var stofnað,“ segir Ólafur.