*

fimmtudagur, 2. apríl 2020
Innlent 12. febrúar 2020 10:39

Starfsmönnum OR fjölgað um þriðjung

Orkuveita Reykjavíkur fækkaði starfsmönnum um 90 manns vegna fjárhagsvandræða á sínum tíma en hafa bætt við 132 síðan.

Ritstjórn
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta í borgarstjórn. Hann hefur áhyggjur af því að báknið sé að blása út.
Haraldur Guðjónsson

Síðan Orkuveita Reykjavíkur fækkaði starfsmönnum sínum um 90 manns í hagræðingaraðgerðum árið 2011 vegna fjárhagsvanda hefur starfsmönnum fyrirtækisins fjölgað um 32% á ný að því er Fréttablaðið greinir frá.

Meðal markmiða í hagræðingaráætlun félagsins, sem er að stærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, á sínum tíma var fækkun starfsfólks og náðist það á rúmu ári þegar starfsmenn félagsins voru komnir úr 517 í 420 árið 2013. En í dag eru starfsmennirnir orðnir fleiri en áður, eða 553, sem er fjölgun um 133, eða 32% en nú segir félagið að aftur sé farið að fækka starfsfólki.

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur sem situr í minnihluta, segir þetta áhyggjuefni fyrir skattgreiðendur.

„Eðli báknsins virðist vera að blása út,“ segir Eyþór. „Höfuðborgarbúar þurftu að sætta sig við auknar álögur til þess að snúa við rekstri OR á sínum tíma. Við höfum talað fyrir því að bætt rekstrarniðurstaða skili sér í lægri gjöldum en það hefur ekki gengið eftir.“

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi OR segir fjölgunina undanfarið vera eðlilega samhliða frestun á flestum fjárfestingum samstæðunnar á árunum 2010 til 2012 og að samhengi sé milli starfsmannafjölda og fjárfestinga og umsvifa almennt. Því þó flest verkefnin séu boðin út sé þeim gjarnan verkstýrt af starfsmönnum OR.