Jürgen Stark, aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópu, segir að evran hafi sannað gildi sitt í fjármálakreppunni. Hún hafi verið sem skjöldur gegn óróanum á alþjóðlegum gjaldeyris- og fjármálamörkuðum. Þetta kemur fram í frétt þýska viðskiptablaðsins Handelsblatt, sem vitnar í viðtal í RBB-Inforadio.

Stark segir að án sameiginlegu myntarinnar hefðu evrulöndin lent í mun meiri vanda á síðustu mánuðum. Hann segir að sjá megi af því hvernig ástandið hafi verið fyrir upptöku evrunnar að þegar slíkur órói hafi gengið yfir hafi jafnan myndast mikil spenna á milli gjaldmiðla ríkjanna og einnig pólitísk spenna á milli ríkjanna.

Ekki hægt að stytta sér leið að evrunni

Vegna áhrifa fjármálakreppunnar segir Stark að sú hugmynd hafi komið upp í mörgum löndum sem ekki hafi evruna hvort ekki væri rétt að undirbúa sig hratt fyrir upptöku evru. Hann segir hins vegar að í þessu sambandi sé hvorki neitt sjálfkrafa né sá möguleiki fyrir hendi að stytta sér leið að evrunni. Allir sem vilji taka upp evru verði að uppfylla Maastricht-skilyrðin.