Fjöldi notenda Windows 8, nýjustu útgáfu stýrikerfisins frá Microsoft, hafa saknað Start-hnappsins sem til fjölda ára átti sinn stað í vinstra horni neðst á tölvuskjánum. Ákveðið var að fjarlægja hnappinn fyrir útgáfu nýjustu gerðarinnar af stýrikerfinu, Windows 8. Microsoft hefur nú tilkynnt að hnappurinn mun snúa aftur í uppfærslu á kerfinu.

Start-hnappurinn hefur verið í Windows-stýrkerfunum alla tíð frá Windows 95. BBC greinir frá því að Microsoft ákváð að mæta gagnrýnisröddum með því að bæta honum í nýjustu útgáfu Windows. Þó verða ekki allir fyrri eiginleikar Start-hnappsins sem munu fylgja uppfærslunni.

Í nýjustu útgáfu Windows 8 birtist Start-hnappurinn aðeins ef músarbendillinn er færður í neðra hornið vinstra megin á skjánum. Með uppfærslunni verður þessi möguleiki sýnilegri og færa notendum fleiri möguleika.

Breytingar á notkun Start-hnappsins hafa verið afar umdeildar hjá Windows-notendum. Í grein Financial Times um málið í byrjun maí voru „mistök“ Microsoft sögð vera þau stærstu af hálfu fyrirtækis síðan Coca-Cola kynnti nýja uppskrift að drykknum fyrir nærri 30 árum síðan.