Viðskiptahraðallinn Startup SuperNova hefur göngu sína í dag. Meðal markmiða þátttakenda eru að fækka spítalasýkingum, auka skilvirkni við gagnagreiningu og draga úr óskilvirkni á vinnustöðum. Alls voru tíu sprotafyrirtæki valin til þátttöku í hraðlinum sem stendur yfir í 10 vikur og lýkur með kynningum fyrirtækjanna fyrir fjárfestum þann 28. ágúst n.k.

Meðal þeirra sem valdir voru til þátttöku eru stofnendur farsælla tæknifyrirtækja eins og Sling og Syndis en eitt af yfirlýstum markmiðum með hraðlinum er að aðstoða öflug núverandi fyrirtæki við að sækja fram eftir COVID-19. Fjögurra manna valnefnd fór yfir umsóknirnar auk fulltrúa Icelandic Startups en alls bárust 120 umsóknir í hraðalinn.

Af þeim sem sóttu um að komast inn í viðskiptahraðalinn, sem Nova tók upp á arma sína í haust, komust einungis 8% umsækjenda inn, en alþjóðleg reynsla og sterkur bakgrunnur á sviði viðskipta, tækni og frumkvöðlastarfs er sagt einkenna þátttakendur sem urðu fyrir valinu.

Fjögurra manna valnefnd fór yfir umsóknir auk Icelandic Startups, og munu síðan teymin vinna hörðum höndum að hugmyndum sínum næstu 10 vikurnar og kynna fyrir fjárfestum í haust. Eins og áður segir er Startup SuperNova nú samstarfsverkefni Icelandic Startups og Nova þar sem leitast er við að þróa viðskiptahugmyndir og fyrirtæki sem sótt geta á alþjóðamarkað.

Hverju teymi býðst fjárstyrkur að upphæð einni milljón króna, fullbúin vinnuaðstaða, fræðsla, þjálfun og ráðgjöf frá reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum ásamt fjölda tækifæra til að koma viðskiptahugmynd sinni á framfæri og efla tengslanetið.

Valnefndina skipuðu, auk fulltrúa frá Icelandic Startups sem hafa umsjón með verkefninu:

  • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect
  • Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri og eigandi Volta ehf.
  • Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður tækninefndar hjá Vísinda- og tækniráði og fyrrum stjórnarmeðlimur Tækniþróunarsjóðs
  • Einar Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í nýsköpun

Salóme Guðmundsdóttir , framkvæmdastjóri Icelandic Startups segir alþjóðlega reynslu og sterkan faglegan bakgrunn einkenna umsækjendur í Startup SuperNova í ár.

„Þátttakendur hafa margir hverjir áður stofnað fyrirtæki eða starfað sem sérfræðingar hjá sumum af stærstu fyrirtækjum landsins,“ segir Salóma. „Við munum reglulega standa fyrir opnum viðburðum í sumar sem nánar verða kynntir á Facebook síðu Startup SuperNova þegar nær dregur. Áhugasamir geta því farið að láta sig hlakka til að kynnast fyrirtækjunum betur.“

Þátttakendur Startup SuperNova árið 2020 eru eftirtaldir:

  • BidPare

Fljótleg og einföld leið til að fá tilboð, bera saman og samþykkja tilboð. Einnig frábær vettvangur fyrir fyrirtæki að komast í samband við mögulega viðskiptavini á einfaldan hátt.

  • Inch

Raddstýrð snjallsímalausn fyrir starfsmenn á faraldsfæti og sameinar verkefnastjórn, sjálfvirka tímaskráningu og samskiptakerfi í einn pakka.  Með því að hnýta saman lykilþætti daglegra aðgerða starfsmanna dregur Inch úr óskilvirkni, flækjum og misskilningi á vinnustað.

  • JustBjorn

JustBjorn býr til og framleiðir lífrænar og bragðgóðar matvörur og fæðubótaefni sem innihalda íslenskt collagen. JustBjorn vörurnar hjálpa við að viðhalda heilbrigðum og virkum lífsstíl þar sem við teljum að líkamleg heilsa og fegurð komi innan frá.

  • Lightsnap

Lightsnap færir ljósmyndirnar aftur í myndaralbúmin. Þú kaupir 24-mynda filmu í appinu, alveg eins og á gömlu einnota myndavélunum. Þegar þú ert búinn að taka myndirnar, framköllum við þær og sendum þær beint heim til þín.

  • Quick Lookup

Quick Lookup veitir einfaldan og samþættan aðgang að heims-gögnum sem algengt er að gagna-greinendur, gagna-verkfræðingar, forritarar og gagna-drifið viðskiptafólk noti við vinnslu, hreinsun, auðgun og greiningu gagna. Markmiðið er að auka skilvirkni við gagnagreiningu og hámarka virði þeirra upplýsinga og ákvarðana sem hún skilar.

  • SaniVisionAI

Með nýjum aðferðum og nálgunum er markmiðið að fækka spítalasýkingum með því að færa tæknina inní fjórðu iðnbyltinguna.

  • Smáforrit

Kennsluappið er hugbúnaður fyrir snjalltæki sem mun innihalda mikið magn fjölbreyttra menntunarleikja fyrir hinar ýmsu námsgreinar á íslensku og öðrum tungumálum. Í boði verða bæði leikir til að tileinka sér efni og til að æfa skilning.

  • Stubbur

Stubbur er miðasölu app nútímans. Einkenni þess er einfaldleiki og styrkleiki vörunnar eru m.a. engar raðir, enginn pappír og engin snerting.

  • Veiðiland

Veiðiland er sölusíða fyrir veiðileyfi og veiðiferðir í ám, vötnum og bátum út um allan heim. Síðan mun innihalda sölu á leyfum, búnaði, teningar við bílaleigur, tengingar við hótel og annað efni tengt veiði og veiðiferðum.

  • VidCove

VidCove nýtir íslenska myndgreiningartækni fyrir vefkerfi þar sem eigendur gagnasafna geta gert myndir og myndbönd aðgengileg gegnum gagnstæða myndaleit.