Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums-Burðarás, sagði á morgunverðarfundi Glitnis í morgun að hann sæi ekki fyrir sér frekari sameiningu íslensku viðskiptabankanna. Bankarnir myndi hins vegar stækka enn frekar erlendis með kaupum á fjármálafyrirtækjum. Vöxtur þeirra yrði þar í framtíðinni.

Í erindi sínu velti Þórður Már fyrir þróun og horfum í rekstri fjármálafyrirtækja. Hann benti á að skilyrði til fjármögnunar á yfirtökum hafi verið hagstæð á undanförnum árum. Yfirtökur íslensku fjármálafyrirtækjanna hafi þannig bætt tekjudreifingu þeirra og dregið úr áhættu þeirra. Þannig séu félögin nú orðin hluti af alþjóðlegum markaði og sterkari fyrir vikið.

Þórður taldi hins vegar ólíklegt að erlendir bankar myndu opna útibú eða skrifstofur hér á landi. "Það er miklu líklegra að þeir vilji yfirtaka eða gerast kjölfestufjárfestar í íslenskum banka. Það kann að gerast eftir nokkur ár," sagði Þórður.

Hann velti síðan upp þeirri spurningu, hversvegna erlendir aðilar ættu að kaupa íslenskan banka? Þórður benti á að þannig gætu þeir náð fótfestu í sterkum norrænum banka. Um leið gæti það gerst að íslenskir kjölfestufjárfestar kynnu að vilja losa um eignarhlut sinn.

Þórður Már benti einnig á að innlendir bankar væru nú orðnir minna háðir íslenska hagkerfinu. Hann taldi hins vegar að það gæti orðið lausn fyrir fjármögnun bankanna að flytja höfuðstöðvar þeirra til útlanda eða taka upp erlenda mynt, t.d. evru. "Það er allt eins líklegt að til þess komi til að auðvelda fjármögnun bankanna erlendis. Fjármögnun Glitnis hefði þannig verið auðveldari undanfarið ef hann hefði verið norskur og fjármögnun KB banka hefði verið auðveldari ef hann hefði verið breskur."

Þórður velti einnig fyrir sér hvort sókn íslensku bankanna erlendis hefði ef til vill verið of hröð. Taldi þó að mest allt í útrás þeirra hefði verið gert vel.