Norski olíuframleiðandinn Statoil mun auka framleiðslu sína á gasi í 50 milljarða rúmmetra fyrir árið 2015, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Um er að ræða helmings aukningu frá því sem nú er. Framleiðsluaukningin samsvarar 8% á ársgrundvelli á tímabilinu 2004 til 2005.

Forsvarsmenn Statoil segja gasmarkaðinn í miklum vexti og að þar liggi helstu sóknarfæri félagsins. Því þurfi félagið að finna ný vinnslusvæði og auka nýtingu eldri svæða hvort heldur við Noregsstrendur eða á alþjóðlegum hafsvæðum. Nú þegar er hafin rannsókn á nýjum svæðum í Barentshafi. Lagt hefur verið út í mikla rannsóknarvinnu hjá félaginu til að tryggja framleiðsluaukningua á olíu og gasi en markmið Statoil er að geta framleitt 1,2 milljarða tunna á árinu 2007 umfram það sem nú er.