Norski olíurisinn Statoil hefur afskrifað tvo milljarða norskra króna, jafnvirði um 40 milljarða íslenskra, vegna olíu- og gasverkefnis í Barentshafi. Félagið í kringum verkefnið heitir Shtokman Development AG og átti Statoil fjórðungshlut í félaginu á móti franska fyrirtækinu Total. Rússneski jarðgas- og olíurisinn Gazprom á helming á móti þeim.

Tilkynnt var um afskriftirnar í norskum fjölmiðlum í dag.

Ástæðan fyrir afskriftinni er sú að samstarfssamningur Statoil í verkefninu er fallinn úr gildi. Viðræður standa yfir á milli forsvarsmanna Statoil og Gazprom, sem hefur tekið yfir hlut Norðmannanna í verkefninu. Norski netmiðillinn E24 segir enn ekki ljóst hversu mikið verkefnið hefur kostað Statoil til þessa að öðru leyti en því að afskriftir nema tveimur milljörðum norskra króna.